39. þáttur: Skólinn, umhverfið, náttúran
Í fyrstu reglugerð skólans, frá 1872, er náttúrufræði ekki skyldunámsgrein í almennri kennslu fyrir ófermd börn, en heimilt er ef aðstæður leyfa, að veita þeim tilsögn í landafræði og að auki náttúrusögu í „sérstakri kennslu“ fyrir fermd börn. Í reglugerð skólans frá 1912 segir að kenndar skuli 3 vikustundir í náttúrufræði og 3 í landafræði og eftir það er prófað í þessum greinum. Í ágúst 1916 bókar skólanefndin að eðlisfræðiáhöld o.fl. vanti við skólann og samþykkir að bæta þar úr.
Myndin er af náttúrufræðibók Bjarna Sæmundssonar (4. útg. 1909) sem kennd var í skólum landsins í hálfa öld. Þar er fræðsla um eðlisfræði, grjót, dýr, plöntur og mannslíkamann. Sumir kennarar flettu gjarna fram hjá blaðsíðunum um æxlun mannsins.
Menntamálaráðuneytið samþykkti 1968 áætlun um eflingu eðlis- og efnafræðikennslu fyrir 11-16 ára unglinga. Árið 1970 var hafin tilraunakennsla, útgáfa námsefnis, sala kennslutækja og námskeið fyrir kennara. Sumir í Vatnsleysustrandarhreppi voru fljótir að kveikja á perunni, eins og sjá má á svohljóðandi bréfi dags. 11. mars 1970: „Til hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps. Í tilefni þess að Verkalýðsfélag Vatnsleysustrandarhrepps varð 25 ára gamalt 29. desember síðastliðinn, ákvað félagið á aðalfundi 7. mars síðastliðinn, að færa Brunnastaðaskóla að gjöf kennslutæki í eðlis- og efnafræði. Kennslutæki þessi hafa þegar verið keypt og afhendast hér með skólanum til eignar. Vogum, 11. mars 1970. Fyrir hönd Verkalýðsfélags Vatnsleysustrandarhrepps. Jón Bjarnason, formaður.“ Pétur G. Jónsson oddviti þakkaði fyrir hönd hreppsins og lagði til að skólanefndin sendi verkalýðsfélaginu viðurkenningu með þakkarorðum. Það kann hugsanlega að hafa örvað gjafmildi verkalýðsfélagsins að til stóð að sameina það félaginu í Keflavík.
Í fyrsta áfanga Stóru-Vogaskóla 1979 var aðstaða til að kenna náttúrufræði og í þriðja áfanganum frá 2005 er vel búin náttúrufræðistofa. Umsjónarkennarar kenna yngri bekkjum náttúrufræði en frá 2000 hafa líffræðingar kennt mið- og unglingastigi. Um árabil spreytti 7. bekkur sig á krufningu brjóstholslíffæra úr svínum, en þeim svipar mjög til líffæra mannsins. Myndin er úr slíkum tíma árið 2008. Nemandinn fyrir miðju kennir nú íþróttir við skólann.
Halla Jóna og Særún tóku saman á 10. áratugnum hugmyndir að útivistarferðum í nágrenni skólans. Farið var gangandi frá skólanum í sumar ferðirnar og á skólabílnum á fjarlægari staði, svo sem í Lambafellsgjá, Keili, sleðaferðir á Svartsengisfell og skautaferðir á Seltjörn.
Halla fékk gamlar konur til að mæta í tíma og kenna handbragð og lét börnin banka upp á hjá eldri íbúum til að gleðja þá, segja eitthvað fallegt eða gefa smá gjafir. Börnin gerðust litlir leiðsögumenn og undirbjuggu að segja frá ákveðnum stöðum. Helga Ragnarsdóttir kom með hesta og teymdi undir og fleira mætti nefna. Svo kom eldra fólk í skólastofur yngri barna og sagði frá hvernig lífið var þegar þau voru ung og Helgi Davíðs kom og spilaði á sög og munnhörpu.
Árið 1984 hófu skólarnir á Suðurnesjum uppgræðslu- og gróðursetningarátak í maímánuði, sem nefnt var Vordagar
Vigdísar til heiðurs þáverandi forseta. Yngstu nemendur Stóru-Vogaskóla hafa nær öll ár síðan sáð grasfræi og áburði og grætt þannig upp moldarflög í nágrenni þéttbýlisins. Lengst af hefur Landgræðslan lagt til áburð og grasfræ og Yrkja trjáplöntur, en nemendur á miðstigi hafa gróðursett trjáplöntur - hin síðari ár við Háabjalla - og gera enn á hverju vori í umsjá landgræðslu- og skógræktarfélagsins Skógfells. Skólinn fékk landgræðsluverðalunin 2014. Myndin sýnir nemendur gróðursetja birki vorið 2007.
Síðastliðinn áratug hefur skólinn tekið þátt í grænfánanum, alþjóðlegu umhverfismenntaverkefni. Þá er valin umhverfisnefnd skipuð kennurum og nemendum sem markar umhverfisstefnu skólans. Grænfáninn er viðurkenning til skóla sem vinna að sjálfbærnimenntun á einhvern hátt. Á myndinni er umhverfisnefndin 2014. Nemendur skipa meirihluta nefndarinnar.
Árlega er haldinn rusladagur. Allir nemendur fara þá í hópum um nágrennið, tína rusl, safna því saman og flokka. Um tíma bjuggu yngstu nemendurnir til úr því ruslaskrímsli.
Frá því að Fræða/þekkingarsetrið í Sandgerði kom til 1996 er það heimsótt nær árlega og unnið með fugla, spendýr og sjávarlífverur. Myndin er tekin í heimsókn þar 2008. Einnig var þáverandi Sæfiskasafn í Höfnum oft heimsótt fyrsta áratug 20. aldar.
Stóru-Vogaskóli tók árin 2000-2003 þátt í GLOBE, fjölþjóðlegu vísinda- og kennsluverkefni af bandarískum rótum, þar sem nemendum í yfir 100 löndum rannsaka og mæla vissa þætti í umhverfinu og lífríkinu og skrá í gagnagrunn á netinu. Nemendur mældu reglulega og skráðu veður og nokkra eðlisþætti í Vogatjörn og í sjónum, og fylgdust auk þess með vorkomu með því að skrá hvenær brum á trjám opnuðust. Hápunkturinn var viku ferð eins kennara og fjögurra nemenda í 8. bekk á vísindamót í Eistlandi í nóv. 2001, þar sem 8 lönd tóku þátt. Þar þurftu nemendur m.a. að flytja erindi á ensku um það sem þeir voru að gera. Þrír þessara kraftmiklu ungu nemenda voru að stíga á erlenda grund í fyrsta sinn.
Virkjum vísindin var hönnunarkeppni Suðurnesjaskóla sem Stóru-Vogaskóli tók þátt í 2008-2010 og vann oftast til verðlauna. Víkurfréttir 12.06.2008. Vorið 2008 var alternator úr bíl settur á þrekhjól. Gátu nemendur með því að hjóla framleitt rafmagn sem nægði fyrir fartölvu, var nefnt heilsufartölva. Myndin er úr keppninni 2009.
Skólinn er þannig staðsettur að auðvelt er að stunda fjölþætta útikennslu í náttúrufræði. Sand- og klettafjara og tjörn er nánast við húsvegg og stutt í móa og gróin hraun. Guðrún Kristín Ragnarsdóttir, sem kennt hefur náttúrufræðin frá 2017 segir svo frá: „Mér finnst alltaf eitt af skemmtilegri verkefnunum að vinna þemaverkefni með 6. bekk um lífríki Vogatjarnar. Þar bý ég svo vel að hafa ýmislegt frá þér (ÞÖ) til að vinna með. Krakkar telja sig þekkja Vogatjörn ágætlega og hafa flest veitt þar hornsíli og gaman að fylgjast með þeim uppgvöta hulinn heim hins smásæja lífríkis í vatninu. Við byrjum á að skoða gróðurfarið og nota greiningalykla til að kynnast helstu plöntunum. Svo útbúum við ferskvatnsker í fiskabúri sem við höfum í stofunni og vekur ávalt athygli í öllum bekkjum. Farið er í vettvangsferðir og sýnum úr lífríki tjarnarinnar safnað í fiskabúrið og krukkur. Svo er það rannsóknarvinnan. Það kemur margt í ljós þegar nánar er skoðað í fiskabúrið, hornsíli sýkt af bandormum, sprækar brunnklukkur og tjarnatítur, lirfur, blóðsugur og smákrabbadýr. Það er skemmtilegt en einnig krefjandi að lofa nemendum að leika lausum hala í rannsóknarvinnunni og verða forvitin og vinna með víðsjár og rafræna smásjá til að ná myndum. En ég hef séð breytingar á lífríkinu undanfarin ár. Hornsílum hefur fækkað gríðarlega og í sumum vettvangsferðum sjáum við engin. Krakkarnir hafa ýmsar kenningar varðandi það eins og mengun.“ Myndin sýnir Vogatjörn ísi lagða.
Höfundur þessa þáttar sótti 2011 um styrk og gerði um haustið tilraun með að virkja nemendur hvers bekkjar sem hann kenndi (5.-10. bekk) til að kynna náttúrufræðinámið fyrir fjölskyldum sínum, síðdegis eftir vinnu. Mæting var
mjög góð í sumum bekkjunum og var slík kynning endurtekin vorið eftir í þeim bekkjum. Til er ítarleg lýsing á verkefninu og ljósmyndir.
Hér á eftir er mynd af einu af veggspjöldum um hnattræna hlýnum sem nemendur í 10. bekk unnu 2011.
Frá árinu 2016 hefur kajakróður verið valgrein í unglingadeildum skólans. Það tókst að finna fé til að kaupa kajaka, útbúin var aðstaða í skúr á lóðinni og 3 kennarar fóru á námskeið og fengin tilskilin leyfi Siglingamálastofnunar. Í verklegum tímum ganga sex nemendur og tveir kennarar í blautbúningum, hver með sinn kajak, niður í fjöru við skólann og róa út á sjó. Það er viðeigandi í þessu byggðarlagi að ungt fólk kynnist sjóróðri sem var ríkur þáttur í lífi fólks í þúsund ár, en lagðist af með öllu fyrir öld síðan.
Að síðustu er hér mynd af nemendum sem Halla og Særún virkjuðu til að sá og bera á moldarflög við Víkurhóla upp úr 1990. Þau moldarflög eru nú algróin.
Heimildir: Bréf frá Verkalýðsfélagi Vatnsleysustrandarhrepps, fræðslumálaskrifstofunni, hreppsskrifstofu o.fl. Reglugerð skólans frá 1872. Gjörðabók skólanefndar, árið 1912. Fundagerðarbók Skólaráðs 1984-2001. Grein um Vordaga Vigdísar. Umhverfisstefna Stóru-Vogaskóla. GLOBE-verkefnið. Virkjum vísindin, Víkurfréttir 12.06.2008. Þorvaldur Örn Árnason 1998: Umhverfismennt. Frásagnir Höllu Jónu Guðmundsdóttur, Særúnar Jónsdóttur og Guðrúnar Kristínar Ragnarsdóttur og Jóhanns Sævars. Myndbönd á youtube-rásinni storuvogaskoli1 Myndir úr kajak-vali, á vef skólans.
- Starfsmenn
- Matseðill
- Stefnur og áætlanir
- Bókasafnið
- Skólasöngurinn
-
150 ára saga
-
Þættir úr sögu skólans
- 1. þáttur: Þriðji elsti barnaskóli sem enn starfar
- 2. þáttur: Torchillii-sjóður og skóli fyrir alla
- 3. þáttur: Fjölþætt starf á 56 fermetrum
- 4. þáttur: Upphafsmaðurinn Stefán Thorarensen
- 5. þáttur: Séra Stefán og stofnun skólans
- 6. þáttur: Skólamenntun á Íslandi frá upphafi
- 7. þáttur: Meira um Thorkillius, Jón Þorkelsson
- 8. þáttur: Elstu barnaskólar landsins
- 9. þáttur: Barnaskóli í Keflavík frá 1887 eða fyrr
- 10. þáttur: Áður en skólinn kom til
- 11. þáttur: Hvernig var hér suður með sjó árið 1872
- 12. þáttur: Vatnsleysustrandarhreppur sjávarþorp á 19. öld?
- 13. þáttur: Skóli einnig stofnaður í Garðinum árið 1872
- 14. þáttur: Ögmundur Sigurðsson, merkur skólamaður
- 15. þáttur: Skólar á Suðurnesjum 1890
- 16. þáttur: Fyrsti vetur skólans á Vatnsleysuströnd
- 17. þáttur: Fyrstu kennararnir - ungir menn á uppleið
- 18. þáttur: Kennarar um aldamótin 1900
- 19. þáttur: Margir skólar, mörg skólahús í sömu sveit
- 20. þáttur: Skólakerfi í mótun um aldamótin 1900
- 21. þáttur: Námsgögn - frá allsleysi til ofgnóttar
- 22. þáttur: Kennslan á Vatnsleysuströnd um 1900
- 23. þáttur: Vatnsleysuskólinn og Ingibjörg Erlendsdóttir
- 24. þáttur: Úr dagbók kennara í Vatnsleysuskóla
- 25. þáttur: Árni Theodór 1910-1920 - og ófarir skólanefndar
- 26. þáttur: Svo kom kennslukona með kennarapróf
- 27. þáttur: Í skólanum hjá Viktoríu
- 28. þáttur: Landsins fyrsti skólabíll - öll kennsla á einum stað
- 29. þáttur: Nýtt og betra hús Brunnastaðaskóla
- 30. þáttur: Skóli, þinghús og samkomuhús
- 31. þáttur: Ungmennaskóli - miðskóli - gagnfræðaskóli...
- 32. þáttur: Íþróttir og sundkennsla
- 33. þáttur: Skólinn fluttur í Voga
- 34. þáttur: Hvernig var í skólanum 1970-1990?
- 35. þáttur: Félagslíf - Skólaferðalög
- 36. þáttur: Afmælishátíð 1. október 2022
- 37. þáttur: Tónlistarkennsla í 150 ár
- 38. þáttur: Mynd- og handmennt og heimilisfræði
- 39. þáttur: Skólinn, umhverfið, náttúran
- 40. þáttur: Samfélagið og skólinn
- 41. þáttur: Erlend mál og tengsl við útlönd
- 42. þáttur: Lesa, skrifa og reikna í 150 ár
- 43. þáttur: Menntun og skemmtun kennara
- 44. þáttur: Þrautseigir kennarar
- 45. þáttur: Fólk í skólasögu Voga
- 46. þáttur: Jólahald í 150 ár og sögulok
- 47. þáttur: Fleira fólk í 150 ára skólasögu Voga - í stafrófsröð
- 48. þáttur: Fjöldi íbúa og nemenda fyrstu 150 ár skólans
- 49. þáttur: Heimildir
- 50. þáttur: Lokaorð - um þessi skólasöguskrif
- Myndir og verk nemenda
-
Þættir úr sögu skólans