18. þáttur: Kennarar um aldamótin 1900

Í tveimur síðustu þáttum var sagt frá 5 fyrstu kennurunum við Thorkilliibarnaskólann í Vatnsleysstrandarhreppi (í daglegu tali nefndur Suðurkotsskóli) og hvað um þá varð er þeir hurfu til annarra starfa. Þeir stoppuðu stutt við skólann, kenndu aðeins 1 eða 2 vetur hver. Hér segir frá þeim næstu, sem flestir stoppuðu lengur við.

Sjötti kennarinn var Skagfirðingurinn Pétur Pétursson (f.1842), kenndi hér í 6 ár, 1877-’83. Hann hafði stundað verslunarnám í Kaupmannahöfn og lokið prófi 1867, og hafði kennt í Hákoti í Innri-Njarðvík veturinn 1876-’77. Náði hann vel til bæði nemenda og foreldra, náði mjög góðum árangri, að sögn séra Stefáns Thorarenssen í skýrslu um skólann. Pétur varð síðar bókhaldari, lögregluþjónn og loks bæjargjaldkeri í Reykjavík 1891-1907. Pétur var faðir Helga Pjeturs, náttúrufræðings og heimspekings (f.1872), en eiginkona Pégurs og móðir Helga var Anna Sigríður Vigfúsdóttir Thorarensen, píanókennari og frænka sr. Stefáns Thorarensen. Helgi lauk doktorsprófi í jarðfræði 1905, fyrstur Íslendinga og varð landsfrægur, setti m.a. fram sérstakar kenningar um framhaldslíf á öðrum hnöttum.

Steingrímur Scheving (f.1859) var kennari 1883-’84. Hann var prestlærður og vel látinn gáfumaður. Faðir hans, Sveinbjörn Hallgrímsson, var aðstoðarprestur á Kálfatjörn um 1850 og bjó þá í Halakoti, en varð síðar fyrsti ritstjóri Þjóðólfs og Ingólfs, og þjóðfundarmaður, og að endingu prestur í Eyjafirði. Móðir hans var Guðrún dóttir Egils ríka í Innri-Njarðvík. Steingrímur varð um tíma geðbilaður, að sögn Ágústs í Halakoti sem var nemandi í skólanum á þessum árum. Hann flutti síðar til Ameríku.

Guðmundur Þorsteinsson var hér kennari 1884-’86, ættaður frá Haugi í Flóa, prýðilegur kennari og gáfumaður. Hann fluttist síðan til Ameríku 1885, bjó þar á Gimli í Nýja Íslandi og stundað lækningar, að sögn Ágústs.

Guðni Felixson mun hafa kennt við skólann 1884-’85 og Snæbjörn Jónsson 1885-’86, líklega farandkennari í barnmörgum hverfum, en skortir heimildir um þá tvo.

Sigurjón Jónsson var Rangæingur, f.1848. Var hann kennari við Suðurkotsskóla 1886-’98, samfellt í 12 ár, svo lengi sem hann lifði. Hann var að auki trésmiður og sóknarnefndarmaður og bjó í Minni-Vogum. Hann átti ríkan þátt í smíði núverandi kirkju að Kálfatjörn. Hann var einn af stofnendum stúkunnar Díönu 1896.

Árni Theódór Pétursson var kennari 1889-’91, aftur 1897-’98, og skólastjóri 1910-’20 og nokkur ár oddviti. Hann fæddist í Nýjabæ í Vogum 1871, bjó um tíma í Hvammi ásamt konu sinni, Önnu Daníelsdsóttur frá Nýlendu, en reif Hvamm og flutti húsið að Hábæ 1921. Það ár hætti hann bæði sem oddviti og kennari, bjó í Hábæ í 5 ár og stundaði sjó, skildi þá við konuna og flutti til Hafnarfjarðar.

Árni var heimiliskennari að Kálfatjörn 1885-´89 og hélt einkaskóla í Vogum 1891-’97. Hann var kennari í Miðneshreppi 1898-1908 og í Njarðvík 1908-´10. Hann hafði ekki kennarapróf, en góð meðmæli frá fyrrgreindum stöðum, þegar hann var ráðinn hér skólastjóri / kennari 1910. Hann gengdi því starfi í áratug og segir frá því siðar. Hann sagði til börnum og unglingum flesta vetur til 1951.

Jón Gestur Breiðfjörð kenndi 1898-1903. Hann var fæddur 1875, sonur Jóns J. Breiðfjörð hreppstjóra og útgerðarmanns á Efri-Brunnastöðum. Jón Gestur lauk námi við Lærða skólann í Reykjavík 1893 og kenndi síðan í hreppnum, fyrst í Norðurkoti, svo í Suðurkoti, þar til hann lést 27. apríl 1903, öllum harmdauði. Jón Gestur Benediktsson í Suðurkoti, Vogum, hét eftir honum.

 

Guðmundur Guðmundsson í Landakoti, sonur Guðmundar Brandssonar alþingis- og þjóðfundarmanns, var organisti í Kálfatjarnarkirkju í 40 ár og kenndi á orgel og söng við skólann frá upphafi. Hann stofnaði stúkuna Díönu, ásamt Lárusi hómópata og fleirum, og var laginn við lækningar.

Þegar séra Stefán Thorarensen lét af prestskap og skólanefndarformennsku sumarið 1886, tók við hvoru tveggja séra Árni Þorsteinsson (f.1851). Hann var formaður skólanefndar til 1910 og prestur til dánardags 1919. Hann tók við því amstri Stefáns að afla styrkja, skrifa skýrslur og ráða kennara, í samráði við oddvita. Auk þess kenndi Árni söng og leikfimi og í nokkur ár almenna kennslu í Norðurkotsskóla. Hann var síðasti presturinn sem bjó á Kálfatjörn.

Lengi vel var enginn titlaður skólastjóri við skólann, en frá 1884 eru oftast tveir kennarar að störfum samtímis, enda er þá farið að kenna á tveimur stöðum, í Þórustaða- og Kálfatjarnarhverfi, auk Suðurkots, og síðar á Vatnsleysu. Segir frá því í næsta þætti.

Heimildir: Greinar í Faxa 1990 ; bók Guðmundar Björgvins. Handskrifuð skjöl (dagbók, prófbók, reikningasr, gjörðabók skólanefndar). Grein Árna Þorsteinssonar í Fjallkonunni 4.tbl. 1897.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School