28. þáttur: Landsins fyrsti skólabíll – öll kennsla á einum stað
Skólinn var frá upphafi heimangönguskóli, en allt of löng ganga var í skólann úr sumum hverfum, t.d. hálftími úr Vogum og klukkustund úr Kálfatjarnarhverfi. Hann var að hluta heimavistarskóli fyrtu árin, því nokkur af börnunum höfðu viðlegu í risi skólans, ásamt umsjónarfólki á 50 fermetrum undir súð! Ekki er ljóst hve lengi sú tilhögun stóð. Einnig voru börn vistuð á nálægum bæjum. Um árabil voru aukaskólar, með farskólasniði, í barnmörgum hverfum. Á 4. áratugnum voru lögð drög að byggingu heimavistarskóla, sem þá voru algengir um sveitir landsins. Á þeim árum greiddi ríkið helming af byggingarkostnaði heimavistarskóla, en aðeins þriðjung af heimangönguskóla.
Árið 1942 tók skólanefnd Brunnastaðaskóla upp þá nýjung, að leigja bíl til að flytja daglega í Brunnastaðaskóla þau börn, sem sækja áttu Vatnsleysuskóla, en hann var um leið lagður niður. Jafnframt að hefja undirbúning að daglegum bílflutningi skólabarna til og frá skólanum næsta skólaár. Stefán Hallsson kennari (sjá mynd) bjó sig undir að annast keyrsluna. Haustið 1943 féllust skólanefndir barnaskólanna á Vatnsleysuströnd og Ölfusi á það, fyrir milligöngu Bjarna M. Jónssonar, námstjóra héraðsins, að gera tilraun til að flytja börn í sérstökum skólabílum sem hrepparnir keyptu. Bjarni færir gild rök fyrir kostum skólabíls í grein í 3. tbl. Menntamála 1944. (Bjarni hafði verið skólastjóri í Grindavík 1925-1929 áður en hann varð námstjóri).
Kannski var þetta ekki svo ýkja frumleg hugmynd, því þá hafði mjólkurbíll gengið nær daglega eftir endilangri Vatnsleysuströnd í tvo áratugi. Frá aldaöðli höfðu flest heimili í hreppnum átt kú, gjarna tvær eða þrjár, og gátu gefið börnum mjólk og unnið skyr og smjör. Á sumrin voru einnig mjólkaðar ær. Um 1897 voru 70 kýr hér í sveit. Árið 1920 hófu bændur í hreppnum að selja mjólk til Hafnarfjarðar og var hún fyrst flutt á hestvagni. Ári síðar stofnuðu bændur hér mjólkursölufélag og bifreiðarfélag. Þeir keyptu Ford mjólkurbíl sem gat borðið 750 kg. Var byggt skýli yfir pallinn og settur bekkur þannig að hægt var að flytja 6 farþega. Var þetta fyrsti bíllinn sem flutti mjólk og farþega til Reykjavíkur og gekk hann alla leið í Voga alla virka daga, í öllu veðrum, alla leið til Reykjavíkur.
Fyrrnefnd skólabílatilraun var framkvæmd veturinn 1943-1944 og gafst svo vel að næsta vetur voru einnig skólabílar í Laugarnesi í Reykjavík og í Njarðvíkum. Stefán Hallsson kennari sá hér um aksturinn fyrstu tvo veturna.
Síðan var enginn skólabíll haustið 1945 því Stefán Hallson var hættur og gamli bíllinn seldur um sumarið í von um að hægt yrði að kaupa setuliðsbíl, og lokst tókst að útvega bíl. Hreppurinn fékk aðeins þúsund króna rekstrarstyrk fyrir árið, en ekkert vegna stofnkostnaðar. Í einni styrkbeiðni til kennslumálaráðuneytisins segir fræðslumálastjóri: „Þessi tilraun með skólabílana hefur gefist vel. Ég er viss um að í framtíðinni verða mörg skólahverfi, sem leysa vandkvæði sín í skólabyggingarmálum og skólasókn með því að hafa skólabíl." Í bréfi til fræðslumálastjórans í Reykjavík (dags. 4. des. 1945) fór oddviti, Jón G. Benediktsson, fram á að fá endurgreiddan hluta af þeim kostnaði sem hreppurinn hafði haft af skólabílum og segir meðal annars: „Þar sem þetta er nýr útgjaldaliður fyrir hreppinn við skólahaldið, og þessi nýbreytni við skólahaldið var gerð í samráði við yður, að nokkru leyti í tilraunaskyni fyrir barnaskóla yfirleitt sem líkt er ástatt með og skólann hér, þá væntum við að hreppurinn fái ofangreindan kostnað (kr. 8.348,36) fyrir árið 1944 endurgreiddan að verulegu leiti.“ Málaleitan þessari var svarað með 3000 króna framlagi ríkissjóðs, „sem samsvarar launum ráðskonu sem mundi hafa þurft að hafa við skólann, ef hann hefði verið heimavistarskóli."
Skólaárið 1946 var Jón H. Kristjánsson settur kennari við skólann og tók jafnframt að sér skólaaksturinn. Skólanefndin óskaði eftir því að hann yrði skipaður kennari eftirleiðis, þar sem skólastjóri og skólanefnd töldu fulla þörf fyrir tvo kennara. Nefndin fór þess á leit að honum yrði veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir sex manna amerískri fólksbifreið, sem notuð verði til flutninga á skólabörnum (fyrstu árin var notast við gamlar bifreiðar, sem reyndust ófullnægjandi). Skólanefndin taldi eðlilegt að bifreiðin væri í eign kennarans, þar sem hann var ákveðinn í að vera næstu ár og tilbúinn að sjá um skólaakstur. Leyfið fékkst, Jón keypti sér „drossíu" sem gekk undir nafninu „Svarta María" og sá um skólaaksturinn næstu tvö ár, fyrir 80 kr á dag. Jón mun jafnframt hafa ekið leigubíl á þessum tíma og notað til þess sama bíl. Haustið 1952 tók Jón að sér aksturinn að nýju (100 kr á dag 1954, 250 kr á dag 1956). Sá hann um aksturinn til 1960, jafnframt því að vera skólastjóri. Var Svarta María þá gamall lögreglubíl (sjá mynd, nemandinn er Sveinbjörn Egilsson, f.1947, faðir Hilmars, núverandi skólastjóra).
Árið 1960 keypti hreppurinn ársgamlan Volkswagen rúgbrauð (sjá mynd) og skiptu Pétur Jónsson oddviti og Gunnlaugur Jónsson skólastjóri með sér akstrinum.
Þegar Reykjanesbrautin er tekin í notkun 1965 hætti Keflavíkurrútan að keyra Vatnsleysuströnd og um Voga og mótmæltu í búar því. Þá lagði ríkið til nýja 17 manna Benz-rútu sem hreppurinn rak næstu 5 árin til að keyra farþega til móts við Keflavíkurrútuna við Kúagerði og Vogaafleggjara, en jafnframt til skólaaksturs. Hafsteinn Snæland ók fyrsta árið en síðan tekur Hlöðver Kristinsson við og ók í nærri 3 ár. Þá, um 1970, kaupa Hlöðver og Haukur Guðmundsson benzinn og fleiri bíla og fara að reka Njarðvíkurstrætó og sáu einnig um skólaksturinn í 2-3 ár.
Árið 1973 tekur Kópur Z. Kjartansson að sér skólaaksturinn á eigin bíl í fullu starfi og ók m.a. daglega með nemendahópa til Njarðvíkur í íþtótta- og sundkennslu, og hverjum nemanda heim eftir að hann hafði lokið skóla. Var þetta góð þjónusta, en þótti dýr, enda fór talsverður tími í bið. Um 1988 tók SBK í Keflavík við akstrinum og sá um hann þar til Íþróttamiðstöðin í Vogum tekur til starfa og skólaaksturinn dregst saman. Þá tóku konur við akstrinum á bíl í eigu sveitarfélagsins, fyrst Margrét Pétursdóttir og síðan Hrafnhildur Bryndís Rafnsdóttir og sinntu þær öðrum störfum við skólann milli þess sem þær óku, Frá árinu 2011 sjá starfsmenn bæjarins um skólakstur, ásamt akstri Vogastrætó sem flytur fólk til móts við Strætó á Reykjanesbraut á virkum dögum.
Heimildir: Skólar á Suðurnesjum, kaflinn Akstur skólabarna. Skólar á Suðurnesjum, Faxi 1 tbl. 1990. Munnlegar
upplýsingar m.a. frá Hlöðver Kristinssyni, Sesselju Guðmundsdóttur og Helgu S. Árnadóttur. Bjarni M. Jónsson,
námstjóri. Skólabílar, Menntamál 1945, 17. árg. 1944. Gjörðabók skólanefndar. GBJ: Mannlíf og mannvirki … Skólabílar. Menntamál 1945.
- Starfsmenn
- Matseðill
- Stefnur og áætlanir
- Bókasafnið
- Skólasöngurinn
-
150 ára saga
-
Þættir úr sögu skólans
- 1. þáttur: Þriðji elsti barnaskóli sem enn starfar
- 2. þáttur: Torchillii-sjóður og skóli fyrir alla
- 3. þáttur: Fjölþætt starf á 56 fermetrum
- 4. þáttur: Upphafsmaðurinn Stefán Thorarensen
- 5. þáttur: Séra Stefán og stofnun skólans
- 6. þáttur: Skólamenntun á Íslandi frá upphafi
- 7. þáttur: Meira um Thorkillius, Jón Þorkelsson
- 8. þáttur: Elstu barnaskólar landsins
- 9. þáttur: Barnaskóli í Keflavík frá 1887 eða fyrr
- 10. þáttur: Áður en skólinn kom til
- 11. þáttur: Hvernig var hér suður með sjó árið 1872
- 12. þáttur: Vatnsleysustrandarhreppur sjávarþorp á 19. öld?
- 13. þáttur: Skóli einnig stofnaður í Garðinum árið 1872
- 14. þáttur: Ögmundur Sigurðsson, merkur skólamaður
- 15. þáttur: Skólar á Suðurnesjum 1890
- 16. þáttur: Fyrsti vetur skólans á Vatnsleysuströnd
- 17. þáttur: Fyrstu kennararnir - ungir menn á uppleið
- 18. þáttur: Kennarar um aldamótin 1900
- 19. þáttur: Margir skólar, mörg skólahús í sömu sveit
- 20. þáttur: Skólakerfi í mótun um aldamótin 1900
- 21. þáttur: Námsgögn - frá allsleysi til ofgnóttar
- 22. þáttur: Kennslan á Vatnsleysuströnd um 1900
- 23. þáttur: Vatnsleysuskólinn og Ingibjörg Erlendsdóttir
- 24. þáttur: Úr dagbók kennara í Vatnsleysuskóla
- 25. þáttur: Árni Theodór 1910-1920 - og ófarir skólanefndar
- 26. þáttur: Svo kom kennslukona með kennarapróf
- 27. þáttur: Í skólanum hjá Viktoríu
- 28. þáttur: Landsins fyrsti skólabíll - öll kennsla á einum stað
- 29. þáttur: Nýtt og betra hús Brunnastaðaskóla
- 30. þáttur: Skóli, þinghús og samkomuhús
- 31. þáttur: Ungmennaskóli - miðskóli - gagnfræðaskóli...
- 32. þáttur: Íþróttir og sundkennsla
- 33. þáttur: Skólinn fluttur í Voga
- 34. þáttur: Hvernig var í skólanum 1970-1990?
- 35. þáttur: Félagslíf - Skólaferðalög
- 36. þáttur: Afmælishátíð 1. október 2022
- 37. þáttur: Tónlistarkennsla í 150 ár
- 38. þáttur: Mynd- og handmennt og heimilisfræði
- 39. þáttur: Skólinn, umhverfið, náttúran
- 40. þáttur: Samfélagið og skólinn
- 41. þáttur: Erlend mál og tengsl við útlönd
- 42. þáttur: Lesa, skrifa og reikna í 150 ár
- 43. þáttur: Menntun og skemmtun kennara
- 44. þáttur: Þrautseigir kennarar
- 45. þáttur: Fólk í skólasögu Voga
- 46. þáttur: Jólahald í 150 ár og sögulok
- 47. þáttur: Fleira fólk í 150 ára skólasögu Voga - í stafrófsröð
- 48. þáttur: Fjöldi íbúa og nemenda fyrstu 150 ár skólans
- 49. þáttur: Heimildir
- 50. þáttur: Lokaorð - um þessi skólasöguskrif
- Myndir og verk nemenda
-
Þættir úr sögu skólans