23. þáttur: Vatnsleysuskólinn og Ingibjörg Erlendsdóttir
Í 19. þætti segir frá því að 1910 var kennslu í litla Norðurkotsskólanum í Kálfartjarnarhverfi hætt, húsið selt og hafin kennsla á Vatnsleysu, en þá voru þar um slóðir barnmörg, fátæk heimili. Árið eftir var byggt lítið steinsteypt skólahús og kennt þar, jafnframt Suðurkotsskóla, í 3 ár, til 1914. Kennari var Kristmann Runólfsson, Hlöðversnesi og síðan Ingvar Gunnarsson frá Skjaldarkoti (kennarapróf 1911). Þá lagðist kennsla af í Vatnsleysuskóla í 11 ár, því þá voru þar færri börn og var 1920 rætt um að selja húsið, en ekki varð að því. Ingvar flutti til Hafnarfjarðar, var frumkvöðull i skógrækt og sá m.a. um Hellisgerði 1925-'56.
Haustið 1924 kemur beiðni frá innanheiðarmönnum og samþykkti skólanefndin að starfrækja Vatnsleysuskólann að nýju veturinn 1925-’26. Skyldi kenna í báðum skólunum á víxl samkvæmt gildandi fræðslulögum. Þennan vetur kenndi Viktoría Guðmundsdótir með þeim hætti tvo mánuði í Vatnsleysuskóla, en fjóra mánuði í Suðurkotsskóla. Var börnunum sett fyrir verkefni til að vinna á meðan. Nemendur í Vatnsleysuskóla voru 8 þennan vetur, en 21 í Suðurkoti. Þegar Viktoría hafði kennt í viku eftir þessu skipulagi og kynnt sér þroska nemenda og þekkingu, sendi hún skólanefnd bréf og telur að áðurnefnt fyrirkomulag sé svo óheppilegt sem mest má verða. Börnin skiptast óhæfilega misjafnt á skólana, 25 sækja Suðurkotsskóla og aðeins 4 í Vatnsleysu og í Suðurkotsskóla er hæfilegt rúm fyrir 20 börn. Eftirlit með börnum á Vatnsleysu illmögulegt því kennarinn er ofhlaðinn störfum í Suðurkotsskóla og börnin þar mega ekkert missa af stuttum námstíma. Svo þarf kennarinn að borga húsaleigu á Vatnsleysu. Viktoría stingur upp á að öllum börnunum verði kennt í Suðurkotsskóla og njóti hvor deild kennslu hvorn dag, önnur deildin telur 15 nemendur og hin 14. En Viktoría kláraði skólaárið á þennan óheppilega hátt, en næsta vetur varð breyting á.
Haustið 1926 var auglýst farkennarastaða til 3 mánaða og Kristmann Runólfsson í Hlöðversnesi ráðinn til 4ra mánaða í Vatnsleysuskólann. Kristmann hafði lokið kennarprófi 1910 og kennt áður bæði við Vatnsleysu- og Suðurkotsskóla. Veturinn eftir var kennslutímabilið lengt í sex mánuði. Skólahald í Vatnsleysuskólanum var óbreytt næstu ár nema hvað kennsla virðist hafa fallið niður veturinn 1930-31. Nemendur sem tóku vorpróf voru 13 vorið 1927 en fór svo fækkandi og voru aðeins 6 vorið 1932. Kennarar voru þeir Skúli Guðmundsson, Guðmann Magnússon, Magnús O. Stephensen og Elín Guðnadóttir. Haustið 1934 var kennslutíminn í Vatnsleysuskólanum styttur niður í 16 vikur og Ingibjörg Erlendsdóttir á Kálfatjörn ráðin kennari skólans í tvo vetur, en hún var þá um tvítugt og hafði lokið kvennaskóla.
Haustið 1936 varð Stefán Hallsson kennari Vatnsleysuskóla. Hann hafði lokið kennaraprófi 1932 og kennt tvö ár í Grunnavík þegar hann réðst hingað 1934 og kenndi aðallega í Kirkjuhvoli. 1938 voru dregin saman seglin, Stefán kenndi nú eldri og yngri börnunum Vatnsleysuskóla saman í 2 mánuði, en í 4 vikur til viðbótar hafði Stefán eftirlit með kennslu á Vatnsleysu þannig að hann setti börnunum fyrir til heimanáms og kom einn dag í viku til að yfirfara og leiðbeina. Þetta fyrirkomulag hélst að mestu til vors 1943 og þótti Stefáni það gefast illa.
Haustið 1943 stefndi í að nemendur yrðu aðeins 4. Var Vatnsleysuskóli þá lagður niður, skólahúsið selt Þórði Jónassyni fyrir 1600 kr og notað sem fjárhús, en hafinn skólaakstur í hreppnum. Eftir það var öllum börnum kennt á einum stað, í Brunnastaðahverfi.
Myndin með hestinum sýnir skólahúsið löngu eftir að notkun þess var hætt, en það var síðar rifið. Hin myndin er af líkani af skólanum sem G. Jónsson í Vogum gerði og sýnir að þetta litla hús hefur verið glæsilegt í byrjun, en gluggarnir síðan minnkaðir, þegar það varð fjárhús.
Áðurnefnd Ingibjörg Erlendsdóttir fæddist í Tíðagerði á Vatnsleysuströnd 9. nóvember 1915 og lést í Reykjavík 2002. Barn að aldri fluttist hún að Kálfatjörn með foreldrum sínum, Erlendi Magnússyni útvegs- og kirkjubónda og Kristínu Gunnarsdóttur og ólst þar upp, ásamt systkinum. Ingibjörg nam við Kvennaskólann í Reykjavík 1931-1933, var kennari á Vatnsleysuströnd 1934-1939 og tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1942. Hún hafði smábarnaskóla í Reykjavík 1942-1947 en gerðist þá kennari við Miðbæjarskólann í Reykjavík og síðan við Austurbæjarskóla, til ársins 1980. Ingibjörg átti sæti í stjórn Ungmennafélagsins Þróttar í Vatnsleysustrandarhreppi og í stjórn kvenfélaga og kennarafélaga.
Varðveist hefur ritgerð Ingibjargar frá því hún lauk kennaranámi 1942. Þar segir m.a.: „Hlutverk skólanna er að beina huga nemendanna á hollar og góðar brautir. Þeir eiga að leita uppi hvern góðan neista í sál barnsins og glæða hann sem best, veita starfskröftum þeirra í þroskandi farvegi, æfa það í sjálfsstjórn, vekja hjá því hjálpfýsi og bróðurhug, og hvetja til hugsunar og framkvæmda. ...
Talað er um tvenns konar gildi námsins; menningarlegt gildi og hagnýtt gildi. Menningarlegt gildi náms glæðir og eflir vitsmunina, skerpir viljann og gerir manninn að siðmenntaðri manni. Hagnýtt gildi hefur nám að því leyti að það á að gera einstaklinginn færari í lífsbaráttunni, veita honum skilyrði til betri afkomu. ...
Kennararnir eru garðyrkjumenn á akri mannlífsins. Þeir eiga að vernda gróður mannlífsins og hlúa að honum á viðkvæmasta skeiði ævinnar. Þeir eiga að búa barnsálirnar undir lífið og gróðursetja fræin, sem framtíð þjóðarinnar sprettur upp af.“
Einnig hefur varðveist dagbók sem Ingibjörg hélt fyrsta haust hennar við Vatnsleysuskóla. Verður gripið niður í hana í næsta þætti.
Heimildir. Um Vatnsleysuskólann. Faxi - 2. tölublað (01.02.1990) - Tímarit.is (timarit.is) Kennsluritgerð Ingibjargar, ferlir.is. Minningargrein um Ingibjörgu, mbl. 30. 4. 2002.
- Starfsmenn
- Matseðill
- Stefnur og áætlanir
- Bókasafnið
- Skólasöngurinn
-
150 ára saga
-
Þættir úr sögu skólans
- 1. þáttur: Þriðji elsti barnaskóli sem enn starfar
- 2. þáttur: Torchillii-sjóður og skóli fyrir alla
- 3. þáttur: Fjölþætt starf á 56 fermetrum
- 4. þáttur: Upphafsmaðurinn Stefán Thorarensen
- 5. þáttur: Séra Stefán og stofnun skólans
- 6. þáttur: Skólamenntun á Íslandi frá upphafi
- 7. þáttur: Meira um Thorkillius, Jón Þorkelsson
- 8. þáttur: Elstu barnaskólar landsins
- 9. þáttur: Barnaskóli í Keflavík frá 1887 eða fyrr
- 10. þáttur: Áður en skólinn kom til
- 11. þáttur: Hvernig var hér suður með sjó árið 1872
- 12. þáttur: Vatnsleysustrandarhreppur sjávarþorp á 19. öld?
- 13. þáttur: Skóli einnig stofnaður í Garðinum árið 1872
- 14. þáttur: Ögmundur Sigurðsson, merkur skólamaður
- 15. þáttur: Skólar á Suðurnesjum 1890
- 16. þáttur: Fyrsti vetur skólans á Vatnsleysuströnd
- 17. þáttur: Fyrstu kennararnir - ungir menn á uppleið
- 18. þáttur: Kennarar um aldamótin 1900
- 19. þáttur: Margir skólar, mörg skólahús í sömu sveit
- 20. þáttur: Skólakerfi í mótun um aldamótin 1900
- 21. þáttur: Námsgögn - frá allsleysi til ofgnóttar
- 22. þáttur: Kennslan á Vatnsleysuströnd um 1900
- 23. þáttur: Vatnsleysuskólinn og Ingibjörg Erlendsdóttir
- 24. þáttur: Úr dagbók kennara í Vatnsleysuskóla
- 25. þáttur: Árni Theodór 1910-1920 - og ófarir skólanefndar
- 26. þáttur: Svo kom kennslukona með kennarapróf
- 27. þáttur: Í skólanum hjá Viktoríu
- 28. þáttur: Landsins fyrsti skólabíll - öll kennsla á einum stað
- 29. þáttur: Nýtt og betra hús Brunnastaðaskóla
- 30. þáttur: Skóli, þinghús og samkomuhús
- 31. þáttur: Ungmennaskóli - miðskóli - gagnfræðaskóli...
- 32. þáttur: Íþróttir og sundkennsla
- 33. þáttur: Skólinn fluttur í Voga
- 34. þáttur: Hvernig var í skólanum 1970-1990?
- 35. þáttur: Félagslíf - Skólaferðalög
- 36. þáttur: Afmælishátíð 1. október 2022
- 37. þáttur: Tónlistarkennsla í 150 ár
- 38. þáttur: Mynd- og handmennt og heimilisfræði
- 39. þáttur: Skólinn, umhverfið, náttúran
- 40. þáttur: Samfélagið og skólinn
- 41. þáttur: Erlend mál og tengsl við útlönd
- 42. þáttur: Lesa, skrifa og reikna í 150 ár
- 43. þáttur: Menntun og skemmtun kennara
- 44. þáttur: Þrautseigir kennarar
- 45. þáttur: Fólk í skólasögu Voga
- 46. þáttur: Jólahald í 150 ár og sögulok
- 47. þáttur: Fleira fólk í 150 ára skólasögu Voga - í stafrófsröð
- 48. þáttur: Fjöldi íbúa og nemenda fyrstu 150 ár skólans
- 49. þáttur: Heimildir
- 50. þáttur: Lokaorð - um þessi skólasöguskrif
- Myndir og verk nemenda
-
Þættir úr sögu skólans