12. þáttur: Vatnsleysustrandarhreppur sjávarþorp á 19. öld?
Hvers vegna voru stofnaðir skólar svo snemma í Vatnsleysustrandarhreppi og Garði? Menningarlegt atgervi og framsýni prestanna Stefáns Thorarensen á Kálfatjörn og Sigurðar Br. Sívertsen í Garði hefur ráðið miklu um það. Önnur mikilvæg ástæða, er vaxandi þéttbýli – barnaskóli var einnig hvati þéttbýlismyndunar.
Árið 1872 nær Vatnsleysustrandarhreppur einnig yfir Njarðvík. Íbúatalan fór vaxandi, nálgaðist 1000, en það var rúmlega1% landsmanna, sem voru þá um 70.000; en í dag búa tæp 0,4% landsmanna í Sveitarfélaginu Vogum.
Á árunum kringum 1830 ræddu frammámenn landsins um stofnun skóla að danskri fyrirmynd en niðurstaðan varð sú að hér væri of strjálbýlt til að safna börnunum í skóla, nema helst í Reykjavík. Umgangskennsla (farkennsla farandkennara) myndi henta betur í dreifðum byggðum. Árið 1830 var reyndar stofnaður skóli í Reykjavík, en þá voru þar 500 íbúar. Sá skóli hélt aðeins út í 18 ár og við tók margra ára þjark á Alþingi sem lyktaði með lagasetningu um þann skóla í Reykjavík sem stofnaður var 1862 og starfar enn um allan bæ!
Hér fiskaðist vel á grunnslóð á þessum tíma, áður en togveiðar komu til. Hér varð þéttbýlla en víða annars staðar, fjöldi íbúa var u.þ.b. 1000 þegar hreppnum var skipt og Njarðvík klofin frá árið 1889, af þeim voru um 200 í Njarðvík. Hér hafði myndast mjög langt og mjótt sjávarþorp með allri ströndinni!
Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur fjallar um það hvernig myndun sjávarþorpa og stofnun skóla á síðari hluta 19. aldar hangir saman, sjá áhugaverða grein hans í tímaritinu Vefni, hér
Árni segir þar m.a.: ”Var ástæðuna fyrir stofnun nýju skólanna að finna í vaxandi þéttbýli? Ef til vill má að hluta til rekja þörfina til þess en einnig má færa fyrir því rök að ein forsenda vaxandi þéttbýlis, eftir 1870 eða svo, hafi verið stofnun barnaskólanna. Sérstaklega á það við um þá sprengingu í stofnun sjávarþorpa sem varð vestanlands, norðan og austan upp úr 1880.
Sjávarþorp með barnaskóla var sennilega meira aðlaðandi í augum þeirra sem ætluðu að flytja úr sveitinni en sjávarþorp án barnaskóla. Stofnun barnaskóla gæti hafa verið mikilvæg forsenda þess að sjávarþorp varð lögmætur búsetumöguleiki á svæðum þar sem nær öll byggð hafði fram að því verið á bújörðum.
Stofnun barnaskólanna á Eyrarbakka, í Reykjavík, á Vatnsleysuströnd (Vatnsleysustrandarhreppur náði einnig yfir Njarðvík) og í Garði 1852–1873 er athyglisverður þáttur í umbreytingu og eins konar endurfæðingu hjáleigu- og þurrabúðahverfa sunnanlands á 19. öld. Þau ruddu brautina þegar kom að því að móta nýtt íslenskt búsetuform, sjávarþorpið. Aðrir þættir í þeirri umbreytingu voru meðal annars stóraukin framleiðsla, sérstaklega á saltfiski til útflutnings, föst búseta kaupmanna og iðnaðarmanna árið um kring eftir 1760, sala konungsjarða í Skálholts-, Hóla- og Viðeyjargóssum til einkaaðila um 1800 og almennt séð breyting á samfélaginu úr lénssamfélagi í kapítalískt samfélag.”
Árið 1703 var Vatnsleysustrandarhreppur samfélag útvegsbænda, hjáleigu- og þurrabúðarfólks, með 21 lögbýli og 64 hjáleigur. Flestar jarðirnar voru í eigu konungs og heyrðu undir Bessastaðagóssið, en höfðu upphaflega verið í eigu Viðeyjarklausturs sem konungur gerði upptækt um siðaskiptin. Á Bessastöðum var helsta bækistöð konungsvaldsins í landinu. Fáeinar jarðir voru þó í eigu kirkna. Þannig voru langflestir íbúar Vatnsleysustrandarhrepps leiguliðar uns kom fram á 19. öld og kóngurinn seldi jarðir sínar bændum. Þá batnaði hagur stærri bænda en hjáleigu- og þurrabúðarfólkið sat eftir. Þannig var ástatt þegar Stefán fékk fólk í lið með sér að stofna skóla.
Myndin sýnir Vatnsleysustrandarhrepp með Njarðvíkum, hið langa og mjóa sjávarþorp, lengd yfir 20 km loftlína.
Meiri upplýsingar úr fyrrnefndri grein Árna Daníels Júlíussonar.
Jarðabókin sýnir hér mjög eindregið lénssamfélag, sjálfsþurftarsamfélag þar sem allir bændur voru leiguliðar konungs eða kirkju. Hjáleigubændur voru síðan undir lögbýlisbændurna settir. .......
Árið 1785 ákvað (danska) stjórnin að selja þrjú stærstu og mikilvægustu jarðagóss í eigu ríkisins. Það voru jarðir Hólastóls, Skálholtsstóls og Viðeyjarklausturs. Á meðal eigna Skálholtsstóls voru allar jarðir á Eyrarbakka. Þær voru allar seldar og einnig allar þær jarðir á Vatnsleysuströnd sem áður höfðu heyrt undir Viðeyjarklaustur og síðan Bessastaði. Flestar lögbýlisjarðir á Vatnsleysuströnd voru nú í höndum sjálfseignarbænda. Allar jarðir, sem höfðu verið konungsjarðir, voru nú komnar í einkaeign. ..... Skoðum nú hvenær jarðirnar á Vatnsleysuströnd ....... voru seldar á tímabilinu 1786–1838 og þá var búið að selja allar jarðirnar. ....................
Það sem er ef til vill allra athyglisverðast við alla þessa þróun er hversu góð tök stjórnvöld höfðu á því að breyta stefnu þjóðfélagsþróunarinnar á Íslandi og í Danmörku á síðari hluta 18. aldar. Það tókst raunverulega að koma þessum löndum á framfarabraut um 1785 með nokkuð friðsamlegum hætti. .......
Eins og tala má um landbúnaðarkapítalisma í Danmörku á tímabilinu 1785–1848 má tala um útgerðarkapítalisma á Vatnsleysuströnd. Enn voru róðrarbátar, hjáleigur, torfbæir o.s.frv. við lýði. Annað var nýtt, allar jarðir voru í sjálfseign, þ.e. lögbýli, verslunin var frjáls og varð enn frjálsari árið 1854 þegar hún var að fullu gefin frjáls við útlönd.
Og nú var í uppsiglingu nokkuð nýtt: Það var búið að stofna barnaskóla á Eyrarbakka. Með því var enn einn steinninn kominn í þá hleðslu sem var umbreyting hjáleigu- og þurrabúðarhverfanna sunnan- og vestanlands úr lénskum fátækragildrum í eina meginstoð íslensku framfaranna á 19. og 20. öld: Sjávarþorpið.
Aðalheimild: Grein Árna Daníels Júlíussonar: Frumgerðir sjávarþorpa.
- Starfsmenn
- Matseðill
- Stefnur og áætlanir
- Bókasafnið
- Skólasöngurinn
-
150 ára saga
-
Þættir úr sögu skólans
- 1. þáttur: Þriðji elsti barnaskóli sem enn starfar
- 2. þáttur: Torchillii-sjóður og skóli fyrir alla
- 3. þáttur: Fjölþætt starf á 56 fermetrum
- 4. þáttur: Upphafsmaðurinn Stefán Thorarensen
- 5. þáttur: Séra Stefán og stofnun skólans
- 6. þáttur: Skólamenntun á Íslandi frá upphafi
- 7. þáttur: Meira um Thorkillius, Jón Þorkelsson
- 8. þáttur: Elstu barnaskólar landsins
- 9. þáttur: Barnaskóli í Keflavík frá 1887 eða fyrr
- 10. þáttur: Áður en skólinn kom til
- 11. þáttur: Hvernig var hér suður með sjó árið 1872
- 12. þáttur: Vatnsleysustrandarhreppur sjávarþorp á 19. öld?
- 13. þáttur: Skóli einnig stofnaður í Garðinum árið 1872
- 14. þáttur: Ögmundur Sigurðsson, merkur skólamaður
- 15. þáttur: Skólar á Suðurnesjum 1890
- 16. þáttur: Fyrsti vetur skólans á Vatnsleysuströnd
- 17. þáttur: Fyrstu kennararnir - ungir menn á uppleið
- 18. þáttur: Kennarar um aldamótin 1900
- 19. þáttur: Margir skólar, mörg skólahús í sömu sveit
- 20. þáttur: Skólakerfi í mótun um aldamótin 1900
- 21. þáttur: Námsgögn - frá allsleysi til ofgnóttar
- 22. þáttur: Kennslan á Vatnsleysuströnd um 1900
- 23. þáttur: Vatnsleysuskólinn og Ingibjörg Erlendsdóttir
- 24. þáttur: Úr dagbók kennara í Vatnsleysuskóla
- 25. þáttur: Árni Theodór 1910-1920 - og ófarir skólanefndar
- 26. þáttur: Svo kom kennslukona með kennarapróf
- 27. þáttur: Í skólanum hjá Viktoríu
- 28. þáttur: Landsins fyrsti skólabíll - öll kennsla á einum stað
- 29. þáttur: Nýtt og betra hús Brunnastaðaskóla
- 30. þáttur: Skóli, þinghús og samkomuhús
- 31. þáttur: Ungmennaskóli - miðskóli - gagnfræðaskóli...
- 32. þáttur: Íþróttir og sundkennsla
- 33. þáttur: Skólinn fluttur í Voga
- 34. þáttur: Hvernig var í skólanum 1970-1990?
- 35. þáttur: Félagslíf - Skólaferðalög
- 36. þáttur: Afmælishátíð 1. október 2022
- 37. þáttur: Tónlistarkennsla í 150 ár
- 38. þáttur: Mynd- og handmennt og heimilisfræði
- 39. þáttur: Skólinn, umhverfið, náttúran
- 40. þáttur: Samfélagið og skólinn
- 41. þáttur: Erlend mál og tengsl við útlönd
- 42. þáttur: Lesa, skrifa og reikna í 150 ár
- 43. þáttur: Menntun og skemmtun kennara
- 44. þáttur: Þrautseigir kennarar
- 45. þáttur: Fólk í skólasögu Voga
- 46. þáttur: Jólahald í 150 ár og sögulok
- 47. þáttur: Fleira fólk í 150 ára skólasögu Voga - í stafrófsröð
- 48. þáttur: Fjöldi íbúa og nemenda fyrstu 150 ár skólans
- 49. þáttur: Heimildir
- 50. þáttur: Lokaorð - um þessi skólasöguskrif
- Myndir og verk nemenda
-
Þættir úr sögu skólans