Heimanámsstefna Stóru-Vogaskóla

Þegar tekin er ákvörðun um heimanám barna þarf að hafa ýmsa þætti í huga sbr. aðalnámskrá grunnskóla (2011). Heimanámi í Stóru-Vogaskóla er þannig háttað að allir nemendur hafa kost á að geta klárað heimanám sitt í skólanum.

Markmið með heimanámi er að:

  • Vera undirbúin fyrir kennslustund.
  • Nemendur rifji upp, ígrundi og þjálfi það sem þau hafa lært í skólanum.
  • Auka sjálfstæði nemenda og ábyrgð á eigin námi.
  • Að þjálfa skipulagsfærni.

Lestur er undirstaða alls náms og því er heimalestur afar mikilvægur og á að vera skemmtilegur.

Til að ná góðum árangri í lestri er mjög mikilvægt að barnið lesi upphátt heima alla virka daga (raddlestur). Við upphaf lestrarnáms er góð regla að lesa hverja blaðsíðu að minnsta kosti þrisvar sinnum. Slík þjálfun gefur barninu aukna færni í lestri orðmynda, auk þess sem lesturinn verður oftast þjálli þegar sami texti er lesinn í þriðja sinn. Þegar nemandi nær að lesa 70 orð á mínútu nægir að lesa tvisvar sinnum. Lesið er í áheyrn fullorðins og kvittað er fyrir áheyrn í kvittanahefti. Áhersla er lögð á að nemendur fái efni við hæfi svo að lesturinn verði sem ánægjulegastur.

Foreldrar eru hvattir til að lesa áfram upphátt fyrir börn sín, jafnvel þó þau séu sjálf farin að lesa. Flest börn ráða einungis við mjög léttan texta í byrjun, en gott er að þyngja textann í hófi eftir því sem færnin eykst. Lestur foreldra og umfjöllun um textann, eykur orðaforða barna og bætir málþroska, en góður málþroski er einn af grunnþáttum alls náms.

Vikuáætlanir í 1.-6. bekk eru sendar heim og/eða settar inn á Mentor. Á vikuáætlunum kemur fram áætluð heimavinna nemenda, ýmsar upplýsingar og tilkynningar.

Nemendur í 7.-10. bekk sjá heimavinnu einungis á Mentor.

Heimanám í Stóru-Vogaskóla

  • Allir nemendur hafa kost á að klára heimanám sitt í skólanum, og þurfa því ekki að fara með það heim, nema því sé ólokið.
  • Heimanám nemenda í 1.-10. bekk hefst daginn eftir skólasetningu.
  • Eftir Litlu jól verður ekkert heimanám hjá 1.-10. bekk, en hvatt er til heimalesturs.
  • Heimanám fellur niður alla þemadaga að undanskildum heimalestri.
  • Heimanám fellur niður í vetrar-, páska- og jólafríum en hvatt er til heimalesturs.
  • Heimanámi lýkur daginn fyrir vordag.

Æskilegt er að heimavinna taki ekki lengri tíma en eftirfarandi viðmið segja til um. Heimavinna er samvinna nemenda, foreldra og kennara.

  • Yngsta stig (1.-4. bekkur)             Eingöngu heimalestur, lágmark 15 mín á dag.
  • Miðstig (5.-7. bekkur)                    80 mín á viku auk heimalesturs, lágmark 15 mín á dag.
  • Elsta stig (8.-10. bekkur)              160 mín á viku auk heimalesturs.

Hlutverk kennara, nemenda og foreldra.

Kennarar

  • setja fyrir og hafa eftirlit með heimavinnu.

Nemendur

  • ljúka við heimavinnu á tilsettum tíma,
  • leggja sig jafnvel fram við heimavinnu og aðra skólavinnu hvað varðar frágang og viðleitni,
  • fylgjast með framvindu náms á Mentor.

Foreldrar/forráðamenn/skóli

  • hjálpa barni sínu við að ljúka við vinnu sína á réttum tíma,
  • hjálpa barninu til að áætla tíma til heimavinnu,
  • styðja við bakið á barni sínu og hvetja það áfram við skólanámið,
  • láta kennara vita ef barnið hefur ekki náð að ljúka við heimavinnu á réttum tíma,
  • láta kennara vita ef heimavinna er ekki við hæfi nemenda (t.d. of létt eða erfið).

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

Friður og ró

  • Yngri nemendum (reyndar líka mörgum sem eldri eru) finnst gott að vera í nálægð við einhvern fullorðinn við námið.
  • Námið hefur forgang.

Ekki of seint á kvöldin

  • Best er að taka frá fastan tíma til að sinna heimanámi.

Æfingin skapar meistarann

  • Einn tilgangurinn með heimanámi er að endurtaka efni sem þegar hefur verið farið í, það er að þjálfa betur ákveðin atriði.

Talaðu jákvætt um heimanámið

  • Mikilvægt er að líta heimanám jákvæðum augum því jákvætt hugarfar auðveldar flest verk.

Forðast ber samanburð við systkini eða aðra

  • Mjög mikilvægt er að virða hvern og einn eins og hann er. Jákvæð hvatning hjálpar en of mikil pressa getur skaðað.
  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School