
Nýr aðstoðarskólastjóri við Stóru-Vogaskóla

Gengið hefur verið frá ráðningu við Hálfdan Þorsteinsson í stöðu aðstoðarskólastjóra við Stóru-Vogaskóla. Hálfdan er með B.Ed. gráðu í kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands og stundar nú meistaranám í Stjórnun menntastofnana við Háskóla Íslands. Hann hefur jafnframt lokið verkefnisstjóranámskeiði í Olweusarverkefninu. Hálfdan hefur starfað sem deildarstjóri við Setbergsskóla í Hafnarfirði í nokkur ár og hefur víðtæka kennslureynslu.
Tíu sóttu um stöðuna, sex voru kallaðir í viðtal og lentu þrír í úrslitum. Einn umsækjenda dró umsókn sína til baka af persónulegum ástæðum. Ráðgjafafyrirtækið Hagvangur yfirfór og mat umsóknir með skólastjóra.
Hálfdan á ættir að rekja til Vatnsleysustrandar en afi hans, Sigurður Gíslason, byggði hluta af núverandi Minna-Knarrarnesi.
Hálfdan tekur við starfinu 1.ágúst af Jóni Inga Baldvinssyni en hann hefur sagt starfi sínu lausu sem aðstoðarskólastjóri. Hann hefur starfað við skólann í 33 ár.
Við munum þó áfram njóta starfskrafta Jóns Inga að einhverjum hluta, en hann mun kenna í hlutastarfi.