
Forvarnardagurinn í Stóru – Vogaskóla
Forvarnardagurinn var haldinn í Stóru-Vogaskóla 5. október. Þema dagsins var Taktu þátt. Dagskráin í Stóru-Vogaskóla var fjölbreytt og unnin í nánu samstarfi við tómstundafulltrúa. Hún hófst með því að nemendum í 8.-10.bekk var safnað saman á sal skólans þar sem horft var á hvatningarmynd um mikilvægi þess að byrja ekki að nota áfengi eða tóbak. Að mynd lokinni fóru nemendur í kennslustofur sínar þar sem þeim var skipt í hópa og þeir ræddu saman um mikilvægi þess að eiga samverustund með foreldrum sínum, mikilvægi þess að nota ekki áfengi eða tóbak – hvert ár skiptir máli í þeim efnum, einnig ræddu nemendur saman um íþrótta- og æskulýðsstarf og komu margar áhugaverðar hugmyndir fram hjá þeim varðandi það. Tómstundafulltrúi kynnti félagsstarfið í vetur. Þegar umræðum og kynningu var lokið fór hópurinn í íþróttahúsið þar sem íþróttakennari og starfsmenn félagsmiðstöðvar tóku á móti þeim. Þar var öllum skipt í hópa og voru ýmsar íþróttagreinar í boði s.s. langstökk, hástökk, körfubolti, skotbolti og kúluvarp. Í félagsmiðstöðinni fengu hóparnir að fara í snú, snú og spila biljard og borðtennis. Nemendur voru mjög virkir í dagskránni og ekki var hægt að sjá annað en að allir skemmtu sér konunglega.