Farsældarvika 4.-8. nóvember
Farsældarvika hefur það að markmiði að gera lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna sýnilegri og kynna þau fyrir samfélaginu í heild. Áhersla verður lögð á að kynna hlutverk tengiliða og stuðla að aukinni meðvitund og skilningi á mikilvægi farsældarlaganna fyrir allt samfélagið.
Öll börn eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa þegar á þarf að halda. Það getur verið flókið að fá aðstoð við hæfi og vita hvert eigi að leita eftir henni. Lögin eiga að tryggja að börn og foreldrar fái rétta aðstoð, á réttum tíma og frá réttum aðilum.
Farsæld barna eða samþætting þjónustu í þágu farsældar barna eru lög sem öll sveitarfélög, stofnanir og þjónustuveitendur sem vinna með börnum og ungmennum á landinu taka þátt í. Lögin tóku gildi í upphafi árs 2022 og eru sveitarfélög að gera ýmsar breytingar á verklagi og þjónustu í takt við lögin sem oft eru kölluð farsældarlögin.
Megin markmið laganna er að vinna saman að hagsmunum barns, þ.e. fjölskyldur, starfsfólk leik- og grunnskóla, félagsþjónusta, starfsfólk íþrótta- og tómstundastarfs og heilbrigðisþjónusta. Með auknu samstarfi og samráði gengur betur að vinna að hagsmunum og farsæld barna. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur lögin hér.
Við leik- og grunnskóla sveitarfélagsins starfa tengiliðir farsældar sem hafa ávallt hagsmuni barns að leiðarljósi og sinna því hlutverki í góðu samstarfi við foreldra. Tengiliður farsældar hefur viðeigandi þekkingu til að vera innan handar og aðstoða við að sækja þjónustu við hæfi. Þannig geta foreldrar og börn leitað til eins aðila sem hefur yfirsýn yfir allt þjónustukerfið.
Forráðamenn og aðrir íbúar eru hvattir til að kynna sér lögin en stuttum myndböndum um lögin sjálf, stigskiptingu þjónustu, hlutverk tengiliða og hlutverk málstjóra verður deilt á samfélagsmiðlum sveitarfélagsins og skólanna næstu daga.
Farsældarlögin
Öll börn eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa þegar á þarf að halda. Það getur verið flókið að fá aðstoð við hæfi og vita hvert eigi að leita eftir henni. Hérna eru nánari upplýsingar um farsældarlögin:
Stigskipting þjónustu
Þjónusta fyrir börn er veitt á þremur þjónustustigum. Gott er að hafa í huga að sú þjónusta sem barnið fær er stigskipt en ekki mál barnsins sem slíkt. Þannig geta börn fengið þjónustu á fleiri en einu þjónustustigi.
https://www.youtube.com/watch?v=Ni_WJsitlPk
Tengiliður
Tengiliður skal vera aðgengilegur öllum börnum og foreldrum og hefur hann viðeigandi þekkingu til að vera innan handar og aðstoða við að sækja viðeigandi þjónustu við hæfi. Þannig geta foreldrar og börn leitað til eins aðila sem hefur yfirsýn yfir allt þjónustukerfið.
Málstjóri
Hlutverk málstjóra er meðal annars að veita ráðgjöf og veita upplýsingar um þjónustu og aðstoða við að tryggja aðgang og/eða greiningu á þörfum barns. Málstjóri hefur hagsmuni barnsins ávallt að leiðarljósi og rækir hlutverk sitt í samráði við foreldra og barn.