
Desember í Stóru-Vogaskóla

Jólaundirbúningur í Stóru-Vogaskóla hefur ekki farið varhluta af því ástandi sem nú ríkir í samfélaginu. Þrátt fyrir það hefur verið reynt eftir fremsta megni að viðhalda þeim siðum og hefðum sem venjulega eru viðhafðar í skólastarfinu í aðdraganda jóla. En margt var öðruvísi en vanalega eins og gefur að skilja.
Föndurdagurinn var með örlítið breyttu sniði í ár. Þá flökkuðu nemendahópar ekki á milli ólíkra stöðva í skólanum eins og verið hefur undanfarin ár, heldur föndraði hver bekkur í sinni heimastofu. Jólafatadagurinn var á sínum stað en jólasöngsamverur á sal skólans voru ekki í ár. Jólatónleikum tónlistarskólans var streymt á facebook síðu skólans.
Sú nýjung var í ár að gluggar skólans voru jólaskreyttir. Þá föndruðu bekkir myndir eða máluðu á glugga sinna heimastofa. Litlu jólin, en svo heitir lokaviðburður skólans fyrir jólafrí, verður á sínum stað með hátíðarbrag að vanda. Þá koma nemendur saman, spariklæddir, í sínar heimastofum. Nemendur koma með kerti og stöðugan kertastjaka að heima. Þegar kertin hafa verið tendruð er lesin jólasaga. Að lestri loknum skiptast nemendur á jólapökkum og gæða sér á góðgætinu sem þau komu með að heiman. Því næst verður dansað í kringum jólatréð, en í ár munu einungis 1.-4. bekkur dansa, og í tveimur hollum.